Fólkið við fuglabjargið

Einu sinni var maður sem hét Deigan. Hann var stór og mikill vexti en þó aðeins nítján ára þegar þessi saga gerðist.

Hann bjó í grennd við fuglabjargið, þar sem skeglur og svartfuglar urpu.

Það var vor og allir karlarnir voru að undirbúa sig að fara að síga í bjargið. Ná í doppóttu eggin sem gáfu svo mikinn kraft að hann entist árið um kring.
Konurnar settu heitar, rjúkandi lummur í kökubox, kleinur, soðið brauð með kindakæfu og nokkra kaffibrúsa í poka.

Það var ekki laust við að þær væru stoltar af sínum mönnum.

Það var ákveðið fyrirfram hverjir myndu síga í bjargið og hverjir væru uppi á brúninni með kaðalinn.

Léttu og nettu mennirnir voru þeir sem áttu að síga... en alls ekki stóru mennirnir...

Ekki láta Deigan síga, hrópaði mamma hans á eftir hópnum þegar þeir gengu af stað.

En það er gömul saga og ný að karlmenn taka ekki nógu mikið mark á konum og þess vegna er nú heimurinn eins og hann er.
.

svartfuglsegg

.

Þegar komið var að bjargbrúninni vildi Deigan ólmur fá að síga... en þú veist hvað mamma þín sagði, sögðu bræður hans og frændur... já en mamma sér ekki alla leið hingað út á bjargið, svaraði Deigan... mig langar bara að prufa einu sinni...

Það varð því úr að þeir létu Deigan síga... sem þeir hefðu aldrei átt að gera.... kaðalinn slitnaði og Deigan hrapaði niður í fjöru... hann lenti á báðum fótum í sandfjörunni og sökk upp að höku...

Leiðangurinn breyttist nú í björgunarleiðangur þar sem bræður og frændur mokuðu sandinum frá Deigan með berum höndum... því engin fer með skóflu í eggjatöku...

Voru þeir tvo sólarhringa að moka Deigan greyið upp... gáfu honum lummur og kalt kaffi á meðan á mokstrinum stóð...

Það voru skömmustulegir karlar sem gengu í hlað á þriðja degi... konurnar biðu spenntar eftir að taka á móti hundruðum eggja... karlarnir útskýrðu hvað gerst hafði í löngu máli... voru með alls konar afsakanir og tipluðu í kringum sannleikann eins og þeir gátu... eftir smá yfirhalningu hjá kerlingunum tóku þær þá aftur í sátt... en héðan í frá myndu þeir aldrei framar láta Deigan síga... 

Síðan hefur ekki hvarflað að körlunum við bjargið að óhlýðnast konum og mega aðrar karltruntur hvar sem er á landinu taka þá sér til fyrirmyndar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Brattur..................................Er sem sagt orðatiltækið orðið "umhverft" ? Þeir sem láta ekki Deigan síga, hagnast, en þeir sem láta karlfjandan gossa, tapa öllu? Er ekki mál að endurskoða hérlenda málshætti? Bara spyr, en hvenær förum við í veiði? Er að vonast til að "Mörgæsin" losni úr tolli í næstu viku, en það fer allt eftir innflutningskvóta evrópusambandsins með litlum staf. ;-)

Halldór Egill Guðnason, 17.6.2010 kl. 03:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband