Þar sem ég hvíli mín lúnu bein - sögulok.
8.5.2010 | 10:49
Við skildum við Hamar þar sem hann hafði tekið við græna steininum úr hendi dökkhærðu stúlkunnar.
Hann varð hamingjusamur í lífinu, eignaðist börn og buru og giftist Þuru.
Það var þó eitt sem angraði hann af og til. Hann sá svo eftir fallegu beinunum sem hann hafði gefið dökkhærðu stúlkunni.
Eftir því sem árin liðu ágerðist þrá hans að sjá og eignast beinin aftur.
Oft hafði hann gengið um fjöruna sína og sest á rekaviðardrumbinn og velt fyrir sér hvort hann ætti að nota óskina einu sem falin var í græna flata steininum.
Hann var farinn að dreyma beinin á nóttunni, þau töluðu til hans;
Pabbi viltu fara með okkur í fjöruna og sýna okkur æðarkolluna og ungana þeirra. Pabbi það var svo gaman að fara í göngutúra með þér; Pabbi viltu sækja okkur.
Hann vaknaði sveittur einn morguninn eftir svona draum. Klæddi sig í skyndi og stakk græna steininum í vasann.
Þegar hann var sestur á rekaviðardrumbinn í fjörunni, tók hann græna steininn upp. Hann hélt honum upp að andlitinu og sagði;
Ég óska mér að fá beinin mín aftur.
.
.
Elding lýsti upp gráan morgunhiminninn og nokkrum sekúndum seinna rauf þruma morgunkyrrðina, það byrjaði að rigna, algjört úrhelli.
Daginn eftir hafði stytt upp og sól skein í heiði.
Við hliðina á rekaviðnum lá lítill strigapoki, hauskúpa af manni og hrúga af beinum.
Sjórinn kyssti ströndina blíðlega þegar æðarkolla synti hjá með ungana sína.
Athugasemdir
Þú ert sannkallað skáld Brattur. Þetta var falleg örsaga
Finnur Bárðarson, 8.5.2010 kl. 17:27
Takk fyrir það Finnur
Brattur, 8.5.2010 kl. 19:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.