Fyndna eldhúsklukkan og þögnin
16.8.2009 | 10:32
Það var svo mikill hávaði í tekatlinum þegar ég ræsti hann í morgun. Ég hélt að ég myndi vekja alla í húsinu og jafnvel í allri götunni... en það voru óþarfa áhyggjur.
Þögnin var bara svo mikil að öll hljóð sem rufu hana mögnuðust og hljómuðu eins og miklihvellur.
Femína hrýtur ennþá, reyndar bara á léttu nótunum núna... hún getur hrotið svo hátt að veggir titra. Held hún hafi verið risaeðla í fyrra lífi.
Nefsöngur Femínu og tikkið í fyndnu eldhúsklukkunni er það eina sem heyrist.
Ég las setningu um daginn varðandi hvort lög væru góð eða ekki. Hún var svona.
Lag þarf að vera betra en þögnin sem það rífur.
Það er varla hægt að orða það betur.
Tikkið í fyndnu eldhúsklukkunni og hroturnar í Femínu eru notaleg hljóð og gera þögnina bara betri.
.
.
Af hverju er eldhúsklukkan fyndin ?
Jú, þessi klukka tók upp á því fyrir nokkru að hvíla sig í hverjum hring. Sekúnduvísirinn stoppar þegar hann vísar niður á töluna 6 - þar hjakkar hann smá stund og safnar í sig orku en heldur svo upp. Þegar hann er svo kominn rétt yfir toppinn, við töluna 1 - þá dettur hann niður á töluna 6 og byrjar að hjakka aftur.
Það sem er svo merkilegt við þetta er að klukkan er alltaf rétt þrátt fyrir að ganga ekki eins og aðrar klukkur.
Jæja þá held ég að heilinn í mér sé að komast í gang... hann var rétt í þessu að senda boð um að mér væri kalt á fótunum og hvort ég ætlaði virkilega ekki að fara að koma mér í sokkana.
Úff... þessi heili... harður húsbóndi...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)