Hugurinn
15.3.2009 | 11:26
Þá er komið að sunnudagshugvekjunni.
Hafði þið velt því fyrir ykkur hvað hugur ykkar er sterkur. Hann tekur ákvarðanir um hvert lappirnar á okkur ætla að ganga í dag. Hann tekur ákvarðanir um hvað við ætlum að segja í dag. Hann tekur ákvarðanir um hvað við ætlum að gera í dag.
Kannski segir hann; best að vera latur í dag. Og þá án þess að þú ráðir nokkuð við það hendir skrokkurinn sér upp í sófa og liggur þar í leti lungað úr deginum.
Kannski langar þig virkilega að slappa af í dag en þá er hugurinn ekki á sama máli og vill fara í sund. Það er sama hvað þú segir í sund skaltu fara því hugurinn ræður för.
Kannski ertu í megrun og ætlar virkilega að standa þig en hugurinn kallar á sælgæti. Það endar með því að þú úðar í þig súkkulaði og lakkrís þangað til þú færð sykursjokk.
.
.
Svo er sagt að hugurinn beri þig hálfa leið... þetta er náttúrulega alrangt... ég hef þurft að ganga sjálfur þangað sem ég vil fara og það er ég sem burðast með þennan blessaða huga daginn út og daginn inn.
En hann (hátt hreykir heimskur sér) situr í toppstykkinu og snýr mér í hringi sér til ánægju.
Með óskum um að dagurinn verði ykkur góður.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)