Inspector Clueso kveður árið
31.12.2008 | 16:44
Ég kveikti á gömlu Gufunni áðan. Þar var verið að lesa veðurfréttir.
Mér fannst í fyrstu að þetta væri hann Björn Bjarnason (Inspector Clueso) að lesa. En áttaði mig fljótlega á því að þetta væri ekki Inspectorinn.
Eftir þetta litla áfall sem ég varð fyrir, fyrir framan útvarpið sá ég heiminn allt í einu í nýju ljósi. Eins og þegar maður sér hver eru aðalatriðin í lífinu og hvað er það sem skiptir engu máli. Svona upplifun verður maður bara fyrir þegar maður verður fyrir áfalli. Og vissulega er það mikið áfall þegar maður heldur að Björn Bjarnason sé farin að lesa veðurfréttir. Hvað næst... gæti maður séð Hannes Hólmstein keyra strætó, Davíð Oddsson hlaupa í Gamlárshlaupinu og Geir Haarde fylgja í humátt á eftir á þríhjóli?
.
.
Ég áttaði mig á því að Björn Bjarnason skiptir mig engu máli.... ég meina það er fullt af fólki að böggast í honum og ég er bara kátur með það... það er líka fullt af fólki að böggast í öllum hinum og ég er bara kátur með það líka... ég bæti engu við þó ég gæti smá böggast í þessum lúðum líka... það er heldur ekki mín sterkasta hlið að böggast...
Um hver áramót gerir maður sér grein fyrir því að tíminn sem manni var úthlutað styttist og styttist... Hefur verið gerð stytta af tímanum?
Þess vegna á nýju ári ætla ég að reyna að vera ekki mikið pirraður yfir leiðinlegu fólki... mér finnst tíminn alltof dýrmætur til þess... fyrir utan það að ég fæ alltaf verk undir hægra herðablaðið þegar ég verð pirraður...
2008 var rosalega gott ár hjá mér... þar sem gleðin ein réð ríkjum... sól og sumarylur... ekki síst í Egyptalandi þar sem við þeystumst um á Úlföldum í eyðimörkinni eða lágum marflöt á sundlaugarbakka og gleymdum stund og stað. River rafting þar sem ég lenti undir bátnum og vissi ekki hvort ég kæmi nokkurn tímann upp aftur situr einnig í minninu... og svo allar góðu stundirnar í daglega lífnu sem ég átti með þeirri sem skiptir mig mestu... þar sem litlu atriðin verða stór, verðmæt og ógleymanleg...
.
.
Mörg skemmtileg plön hafa verið gerð fyrir árið 2009 - ekkert nema spennandi tímar og skemmtilegir framundan... það verðu gaman að fylgjast með litla runnanum okkar sem við settum niður í sumar... við ætlum að setja kartöflurnar "aðeins" fyrr niður í ár (fóru niður í júlí síðast!)... það er svo margt sem hægt er að moða úr... þetta er eins og að vera með fullan dótakassa fyrir framan sig...
.
.
Moggabloggsmenn eru ekki sáttir með nafnið mitt og vilja að ég kalli mig eitthvað allt annað eftir áramótin.
Ég er heldur ekki sáttur við nafnið á Mogganum. Mér finnst að Morgunblaðið eigi að heita Hafsteinn frá Harmi.
Einu sinni var hattur
hann var ekki mattur
Við eiganda hans
Sagði Mogginn stans
Þú mátt ekki heita Brattur.
GLEÐILEGT ÁR!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Skellur
31.12.2008 | 00:10
- ... einu sinni var maður sem hét Skellur. Hann var innheimtustjóri... Skellur hafði aldrei ætlað sér það að verða innheimtustjóri... hann hafði alltaf langað til að verða trésmiður síðan hann las söguna um Gosa...
.
.
Að smíða fallegar brúður sem lifnuðu við, það var það sem hann vildi gera í lífinu... en hann var mesti klaufi og féll í smíðum í skóla þegar hann var að reyna að gera bókahillu, eða Hansahillur eins og það var kallað í þá daga...
Hansahillan hans Skells var nokkuð breið um haustið þegar skólinn byrjaði. Allan veturinn reyndi hann að hefla hilluna beina og hornrétta, en það tókst ekki. Þegar upp var staðið um vorið og komið var að skólasýningu á verkum nemendanna, þá sýndi Skellur ekki Hansahillu, nei hann sýndi ör...
.
.
Já, líklega eru nú lesendur farnir að snökta yfir þessum sorglegu örlögum Skells og finna til samkenndar með honum. Því hver kannast ekki við það að hafa orðið allt annað en hann ætlaði sér?
Það var svo augljóst mál frá því að drengurinn var skírður að hann yrði aldrei kallaður annað en HurðaSkellur... en foreldrum hans fannst það bara fyndið, því drengurinn var eins og lítill jólasveinn í framan þegar hann fæddist...
.
.
Um það leytið sem Skellur varð innheimtustjóri fæddist honum sonur... hann hugsaði málið vel og vandlega og ræddi það fram og til baka við konuna sína hana Bráð, að þetta barn ætti að heita fallegu nafni, einhverju nafni sem ekki væri hægt að uppnefna... einhverju nafni sem tengdist trésmíði..
Hvað á barnið að heita, spurði presturinn... Nagli sagði Skellur stoltur...
Hér endar eiginlega sagan af honum Skell... en eins og þið sjáið er mjög erfitt að uppnefna Nagla og nafnið venst bara nokkuð vel...
En þó má geta þess að strákurinn átti erfitt í boltaíþróttum þar sem allir vildu hitta Naglann á höfuðið.
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)