Inni
30.1.2008 | 22:45
... einu sinni fyrir langa löngu... var ég lítill... þá voru engar leikjatölvur til á Íslandi... já, það er svona langt síðan...
... hvað gerðum við krakkarnir þá, í staðinn fyrir að vera í tölvuleikjum eða á netinu?
... jú t.d. fórum við, ég og besti vinur minn í "Tindátaleik"... eiginlega er þetta svipað og tölvuleikur, nema hann er leikinn á gólfi en ekki í tölvu...
... við stilltum tindátunum upp við gólflista í sitt hvorum endanum á herberginu... í hvoru liði voru kannski 15-20 tindátar...
... síðan vorum við með legukúlu sem við rúlluðum eftir gólfinu og reyndum að skjóta niður eins marga tindáta hjá hvor öðum eins og við gátum...
...eftirfarandi er svona frásögn af þessu... í einhverskonar ljóðrænni framsetningu:
.
.
Inni.
Svo kom demba, alveg mígandi
og við fórum ekki út úr húsi
þú komst til mín með tindátana
mér fannst þínir fallegri
þeir voru líka dýrari
enda þið ríkari
pabbi þinn skipstjóri
minn bara stýrimaður.
En það var ekki útlitið
sem skipti máli
þegar stríðið skall á.
Mínir voru mestu harðjaxlar
og möluðu lið þitt
þegar legukúlan skall
á sundurskotnum gólflistanum
féll megni af liði þínu
dó
Ég blístraði brúðarmarsinn
hátt og snjallt
þér til hrellingar
hélt hann væri
hergöngumars.
Þá reiddist þú
sagðir að það mætti
ekki skjóta svona fast
og fórst heim til þín.
Svo héngum við inni
í sitthvorri fýlunni
þar til stytti upp.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)