Fiskisúpa með pastaskrúfum

... það er ekki nóg að veiða og setja fiskinn í frystinn... heldur er það beinlínis skylda sérhvers veiðimanns að borða það sem hann veiðir... og nú er ég að tala um sportveiðimenn...

... ég er svo heppinn að finnast silungur góður og borða ýmist ofnbakaðan, eða þá í fiskisúpu... nú tók ég einn urriða út úr frystiskápnum í morgun og hann er á leiðinni í súpu í kvöld... ég ætla að koma með þessa uppskrift hérna, en hún er mjög einföld (hentar mér sérstaklega vel að hafa hlutina einfalda)... og fljótgerð..

... síðan þegar sest er að borðum þá grobba ég mig ekki ósjaldan og segi eitthvað svona; ja, þessi var nú veiddur á Peacock nr. 10 við Varastaðahólmann... og er svona frekar góður með mig...

En hér kemur uppskriftin:

Blaðlaukur - gulrætur - steinselja - hvítlaukur - karrý - paprikuduft - súputeningar - hvítvín (mysa gengur alveg) - rjómi - pastaskrúfur - silungur (eða lax)

Aðferð:

Blaðlaukur, gulrætur, steinselja og hvítlaukur er látið krauma í potti.  Karrý og paprikudufti er bætt útí ásamt fjórum súputeningum. 25cl af hvítvíni (mysu) er bætt útí ásamt 75 cl. af rjóma. 1bolli af soðnum pastaskrúfum er settur útí og suðan látin koma upp. Látið sjóða í 4. mín. Fiskurinn er skorinn í teninga eða sneiðar og settur útí í blálokin... soðið í 1 til 2 mín. eftir að fiskurinn fer útí. Miðað er við 80gr. af fiski á mann. Gott að bera fram nýbakað brauð með súpunni. Venjulegur skammtur af súpu er fjórir á hvern lítra.

Þetta er uppskriftin, en uppskriftir eru bara til að styðja sig við, ég spila þetta bara af fingrum fram og set smá skammt af tilfinningum útí... hef t.d. meira af pastaskrúfum en uppskriftin segir og þær mega ekki vera fullsoðnar þegar þær fara útí súpuna...

... mæli með þessu, fljótlegt og gott... þ.e.a.s. ef fólk á annað borð kann að meta fiskisúpur...


Bloggfærslur 5. september 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband