Heylagur
24.12.2009 | 13:21
Kannast fólk við orðið "Heylagur" ?
Nú, ekki ? Þá skal ég segja ykkur smávegis um þetta skrítna orð.
Eins og þið hafið þegar gert ykkur grein fyrir þá er þetta ekki sama orðið og heilagur sem kennt er við andann. Það orð er annars mjög merkilegt og ég held þið ættuð að velta því fyrir ykkur í smá stund áður en þið farið að sofa í kvöld. Þar sem er heilagur staður, talar maður ekki og stígur til jarðar hljóðlaust, dáist að því sem fyrir augun ber og fyrir því sem ekki sést en maður skynjar.
Heilagur maður er mjög heilagur.
Heylagur með yppsiloni er hinsvegar knippi af þurrkuðu heyi sem búið er að flétta í tíkarspena eins og Lína Langsokkur var með. Í endann breiðir heyið úr sér og er eins og sópur sem galdrakerlingar fljúga á um bláan himinninn.
Álfar og huldufólk notuðu heylag til að banka ryk úr rósóttum rúmteppum.
Rúmteppin voru hengd út á snúru og barin sundur og saman, oftast í sunnangolu og sólskini.
Og þá var Heylagið sungið á meðan :
Heylagur, heylagur
Bankaðu nú fast
Teppið og rósirnar allar
Heylagur, heylagur
Út um tvist og bast
meðan að grauturinn mallar
Með þessum þjóðlega fróðleik sendi ég bloggvinum mínum, þjóðinni allri og mannkyninu í heild mínar frómustu óskir um gleðirík jól. Vona ég að sem flestir fá handklæði í jólagjöf.
Munum að við lifum á lítilli kúlu í alheiminum og ævi okkar líður sem augnablik í eilífðinni.
Hættum svo að henda tyggjói út um allt.
.
Athugasemdir
kær jólakveðja til þín og þinna.
Brjánn Guðjónsson, 24.12.2009 kl. 17:03
Jólakveðjur yfir fjöll og dali.
Hrönn Sigurðardóttir, 26.12.2009 kl. 00:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.