Maður eða mús ?
17.10.2009 | 12:06
Einn af köttunum kom með mús inn í húsið í gær.
Músin var í þvottahúsinu þar sem allskonar dót er og auðvelt að fela sig ef maður er mús.
Það gengur náttúrulega ekki að hafa mús í húsi til lengdar, þannig að ég vígbjó mig til orustu við músarræksnið.
Þvottahúsið hafði verið lokað í dágóðan tíma þannig að músin kæmist ekkert annað.
Ég byrjaði á því að tosa sokkana yfir buxnaskálmarnar, þannig að músin gæti ekki hlaupið þar uppundir og setti á mig neongræna uppþvottahanska.
Opnaði því næst dyrnar á þvottahúsinu og gægðist inn... allt virtist með kyrrum kjörum en það var spenna í lofti.
Ég pírði augun eins og fálki, skannaði hvern krók og kima... og viti menn... undir samanbrotnum garðstólum lá kvikindið grafkyrrt... já hugsaði ég... gamla trixið... þykist vera dauð og ræðst svo á mig þegar ég reyni að ná henni...
.
.
Fyrir utan neongrænu gúmmíhanskana var ég líka með glæran plastpoka sem ég ætlaði að veiða músina í.
Ég kraup niður og skreið hægt eftir gólfinu í áttina til hennar með plastpokann einan að vopni. Þegar ég var kominn það nálægt að mér fannst ég geta gripið hana, þá datt mér í hug að leggjast alveg á gólfið og þykjast vera dauður líka... fella músina á eigin bragði... þarna var ég snjall...
Ég opnaði annað augað og kíkti á hana... hún hreyfði sig ekki og hélt örugglega að ég væri í alvörunni dauður... þá kom að því... á eldingshraða skellti ég plastpokanum yfir hana og....... bingó, hún var föst í netinu.
Hróðugur opnaði ég elshúsdyrnar og sigri hrósandi sýndi ég eiginkonunni bráðina... nú yrði konan stolt af mér. Konan leit á músina í pokanum og sagði svo lágt... þetta er ekki músin.... nú sagði ég þá... víst er þetta mús... já en þetta er leikfangamúsin sem kettirnir eiga svaraði konan mín... og barðist við hláturinn...
Svona var sagan um það þegar ég veiddi mína fyrstu gervimús.
Athugasemdir
hahahhahahahahha
Hrönn Sigurðardóttir, 17.10.2009 kl. 17:33
Mér fannst sérstaklega góður hlutinn þar sem þú þóttist vera dauður líka.... við hliðina á leikfangamúsinni
Hrönn Sigurðardóttir, 17.10.2009 kl. 17:33
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 17.10.2009 kl. 20:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.