Brúðarkjóllinn

Eftir að hún fór inn í brúarkjólamátunina ákvað hann að rölta um nágrennið. Hann mátti ekki fara inn með henni og sjá brúðarkjólinn. Hann var yfir sig hamingjusamur eins og strákhvolpur, ástfanginn og glaður í hjarta.

Hann fór inn í bókabúð þar rétt hjá. Hann langaði til að gefa henni gjöf í tilefni dagsins. Reyndar langaði hann alltaf til að gefa henni gjafir, stórar og smáar. Hann elskaði hana óstjórnlega mikið. Allt fallegt sem hann sá minnti á hana, öll fallegu lögin og textarnir sem fjölluðu um ást snertu hann í hjartastað og hann sjá fyrir sér augun hennar. Þessi einstöku dökku augu sem voru full af ást og blíðu.

Hann fann ekki neitt sem passaði í bókabúðinni. Keypti þó styttu af hundi sem hann langaði að gefa dóttur hennar. Rölti áfram um nágrennið og fann blómabúð. Þar inni keypti hann stóra fallega rós. Hann langaði að gleðja hana, sýna henni hvað honum þótti vænt um það sem hún var nú að gera. Gefa henni rauða rós þegar hún kæmi út og væri búin að finna kjólinn. Kjólinn sem hann mátti ekki sjá en vissi að var ofboðslega fallegur, bara þegar hún væri í honum.

Sólin skein.

Hann langaði að setjast á  bekk og lesa blað. Innra með sér var hann svo rólegur, hafði aldrei fundið svona innri ró áður í lífinu. Mikið rosalega átti hann fallega framtíð fyrir augum. Sá búð hinum megin við götuna. Gekk yfir og keypti dagblað. Leit á forsíðuna þegar hann gekk yfir gangbrautina og sá ekki svarta bílinn sem kom á of mikilli ferð. Hann dó samstundis.

Fallega tilvonandi konan hans kom út úr búðinni brosandi. Hlakkaði til að segja honum að hún hefði fundið kjól sem væri einmitt hún.  Hann myndi gráta af gleði þegar hún gengi inn kirkjugólfið.

Svona hefði þessi saga getað endað en hún endaði ekki svona.

Heldur svona;

Hann gekk yfir gangbrautina með dagblaðið undir hendinni. Svarti bíllinn kom á of mikilli ferð en hann sá hann í tíma og rétt náði að stökkva frá honum. Bar fyrir sig hægri höndina þegar hann lenti á gangstéttinni og skrámaði sig.

Þegar hún kom út úr búðinni var hann einmitt að koma að bílnum sem hann hafði lagt þar rétt hjá. Hún brosti út af eyrum faðmaði hann og hvíslaði; ég fann æðislegan kjól, þú verður að hafa með þér servíettu í kirkjuna, ég er viss um að þú ferð að skæla.  Hvað kom fyrir höndina á þér, spurði hún þegar hún sá smá blóð seytla út úr skrámunum.

Ég rak mig aðeins í sagði hann.  þetta grær áður en ég gifti mig.  Þau brostu og horfðust í augu. Jæja, drífum okkur á Bæjarins besta og fáum okkur pylsu. Við þurfum að halda upp á þennan fallega dag.
.

 vintage-wedding-dress1


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

arg úff.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 25.7.2009 kl. 12:40

2 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

svo rómantískur......

Hrönn Sigurðardóttir, 25.7.2009 kl. 23:32

3 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Flott.

Jón Halldór Guðmundsson, 29.7.2009 kl. 13:06

4 Smámynd: Eygló

fyrri útgáfan margfalt betri

Eygló, 4.8.2009 kl. 04:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband