Aðalbjörn
7.2.2009 | 09:30
Einu sinni var maður sem hét Aðalbjörn. Hann átti þrjú börn, Aðalaxel, Aðalgísla og Aðalsigurönnu.
Konan hans hét Lóa. Hún var aldrei kölluð annað en Aðallóa.
Aðalbjörn sagði oft að aðalatriðið í lífinu væri aðallega að standa sína plikt.
Pabbi, hvað þýðir plikt? Sagði Aðalgísli einn daginn þegar pabbi fór með ræðuna um lífið.
Veistu ekki hvað plikt þýðir, Aðalgísli? Sagði pabbi Aðalbjörn hneykslaður.
Aðalfundur! hrópaði hann þá hátt og snjallt. En aðalfundur þýddi að allir í húsinu áttu að mæta á stundinni fram í eldhús og hlusta á Aðalbjörn húsbónda.
Aðalbjörn leit yfir hópinn sinn og sagði; Hann Aðalgísli veit ekki hvað plikt þýðir, vitið þið það?
Nei, engin vissi það.
Ég er oft búinn að segja við ykkur að aðalatriðið í lífinu sé aðallega að standa sína plikt og þið vissuð ekki hvað plikt þýðir, sagði Aðalbjörn og var þungt í honum.
Hvað hélduð þið þá að ég væri að segja?
Mér fannst þú alltaf segja, sagði Aðalsiguranna litla , að maður ætti að standast sína lykt... sem þýddi svo aftur að maður ætti að þola sjálfan sig jafnvel þó það væri vond lykt af manni...
Aðalsiguranna, þú ert gáfuð eins og pabbi þinn, sagði Aðalbjörn brosandi.
Fundi slitið!
.
.
Athugasemdir
Þetta eru Þingeyingar. Annað kemur ekki til greina. (Og svo er spurning hvort þau séu bestu vinir Aðal?)
Einar Indriðason, 7.2.2009 kl. 10:45
Þetta var skemmtileg saga
Aðalbjörn Leifsson, 7.2.2009 kl. 19:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.