Laufabrauðssagan 2.hluti
25.11.2008 | 23:50
.
.
Seinna þegar Ísland var albyggt kvisaðist það út að á Ólafsfirði væri til sérstök tegund brauðs er borðað væri á jólum eingöngu og þætti gott. Þingeyingar vildu gjarnan komast yfir uppskriftina og eigna sér hana, enda manna ánægðastir með lífið og þykjast gjarnan upphafsmenn alls.
Til dæmis má nefna að þegar Kaupfélag Þingeyinga var stofnað, fyrst allra kaupfélaga á Íslandi að þeirra mati, var kaupfélag Ólafsfirðinga löngu komið á hausinn.
Þingeyingar gerðu út leiðangur til Ólafsfjarðar og stálu uppskriftinni af gamalli ekkju lasburða. En þegar þeir rifu blaðið úr uppskriftabókinni hennar varð eftir setning neðst þar sem stóð kúmen eftir smekk. Þess vegna sjá menn og vita að upprunalegt Laufabrauð er með kúmeni en önnur ekki. Þingeyskt Laufabrauð er því bara plat. (Varist eftirlíkingar)
.
.
Ef þú vilt fá ekta Laufabrauð verður þú að snúa þér til einhvers góðs Ólafsfirðings sem gerir brauðið eftir uppskriftinni hennar Laufu gömlu.
Til gamans má geta að bróðir Laufu var Skarphéðinn Skata hann fann upp skötuna. Þá var Patrekur pipar einnig bróðir þeirra, en sá fann upp piparkökuna. Þeirra saga verður sögð síðar. Ýmsa aðra siði sérstaka höfðu Ólafsfirðingar á jólum. Skal hér eitt dæmi tekið til gamans í lokin.
Til að skemmta börnum sínum um jólin var sú nýbreytni tekin upp er fólk af öpum komið fór að setjast að í nálægum byggðum að farinn var leiðangur til bæjar eins skammt frá er Akureyri hét. Þar voru fengnir nokkrir sveinar, oftast þrettán, að láni til að skemmta krökkum Ólafsfirðinga. Fólk það er á Akureyri bjó þótti mjög skrýtið og sérkennilegt og ekki þótti það beint stíga í vitið og því tilvalið skemmtiefni.
.
.
Eftir ein jólin voru sveinar þessir sendir í fyrsta skiptið einir heim, gangandi yfir Tröllaskagafjöllin. Sem vita mátti rötuðu þeir ekki heim, villtust á fjöllum og eru þar enn.
Þeir koma þó til byggða einu sinni á ári um þetta leiti árs og litlu börnin kalla þá jólasveina.
.Ég kalla þá nú bara Akureyringa.
Athugasemdir
Djöfulli lýgur þú alltaf skemmtilega...
Steingrímur Helgason, 29.11.2008 kl. 00:17
Jæja Brattur, þú ert semsagt að segja að ég sé jólasveinn. Það er nú ekki svo slæmt, en ég er allavega ekki villtur á fjöllum.
Ég kem alltaf af fjöllum.
kop, 29.11.2008 kl. 19:54
Noh... svo þú ert þannig Vörður... það er fínt að vera jólasveinn... vinsælir karlar... á hverju heimili...
Brattur, 29.11.2008 kl. 20:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.