Ketill
5.8.2008 | 22:54
Ketill gat verið ískaldur... á morgnana... og morgunfúll... en svo þegar búið var að setja hann í samband varð honum fljótt heitt í hamsi.
Annars var hann bara nokkuð skapgóður og blíður miðað við það að vera úr járni. Og þegar vatnið sauð í honum, þá söng hann suðuvatnsbúbblulagið af hjartans lyst. Mjög fallega sungið, miðað við það að hann Ketill var úr járni og algjörlega hjartalaus.
Eigandi Ketils var hinsvegar ekki úr járni, hann var úr efni sem kallað var hold og blóð. Hann var einnig með hjarta. Hjarta hans var alltaf hálf kalt. Hann var með napurt hjarta.
Katli langaði að kenna eiganda sínum suðuvatnsbúbblulagið og sjá hvort ekki væri hægt að bræða hjarta hans. Fá hann til að hafa gaman af lífinu. Því Ketill fann það á eigin skinni, sem þó var úr járni, að söngurinn bætti geð hans.
.
.
Einn morguninn þegar kaldrifjaði eigandi hans kom fram í eldhús og stakk Katli í samband, þá söng Ketill fegurra en hann hafði nokkru sinni gert fyrr.
Og viti menn, karlskarfurinn byrjaði að muldra með, ekki beint syngja, en tafsaði búbbl, búbbl, búbbl... og svo kom lagið með smá saman... dimmri bassaröddu.
Blaðburðadrengurinn sem kom á hverjum morgni rak upp stór eyru, fúli karlinn var að syngja og einhver var að spila undir... búbbl, búbbl.
Blaðburðadrengurinn fór syngjandi frá húsinu, söng hástöfum suðuvatnsbúbblulagið meðan hann var að bera út afganginn af blöðunum. Þetta var svo skemmtilegt lag.
Enn þann dag í dag er talað um káta daginn í þorpinu þegar allir þorpsbúar lærðu að syngja suðuvatnsbúbblulagið... en enginn veit hver samdi það nema þeir sem lesa þessa sögu.
.
.
Athugasemdir
Áskorun........ komdu með Suðuvatnsbúbblulagið í spilarann.
Anna Einarsdóttir, 6.8.2008 kl. 09:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.