Hringvegurinn - löng saga

Ég var að vinna á Siglufirði í gær. Með mér voru tveir ungir, tvítugir strákar, hörkuduglegir og skemmtilegir. Annar þeirra sagði mér góða sögu af sjálfum sér á leiðinni:

Hann var fyrir tveim árum staddur á Akureyri, þar sem hann býr, og var að vinna við garðyrkjustörf. Hann þurfti að skreppa að Laugum í Reykjadal snemma á laugardegi. Þetta er venjulega svona 40 mín. keyrsla, eða svo. Hann stökk af stað í vinnugallanum. Á leiðinni tók hann túrista uppí sem var að ferðast um landið á puttanum. Sá, var á svipuðu reki og bílstjórinn og  var á leiðinni í Mývatnssveit. Okkar maður sagði að hann mætti fljóta með til Lauga. Frá Laugum væri svo stutt í Mývatnssveit. Þegar að Laugum kom og okkar maður var búinn með sitt erindi, þá hugsaði hann með sér að hann hefði nú ekkert mikið að gera á þessum laugardegi og gæti alveg skutlað þessum erlenda strák upp í Mývatnssveit, sem og hann gerði. Þegar þangað var komið, þá kom í ljós að túristinn var bara með 5-6 þúsund krónur á sér og átti ekki fyrir gistingu, sem var dýr þarna við Mývatn, eða um 15 þúsund krónur nóttin á hóteli, sem hann átti ekki fyrir. Sjá útlenski sagðist þá myndu ganga til Egilsstaða og hélt af stað. Okkar maður var eitthvað áhyggjufullur um að útlendingurinn myndi komast til Egilsstaða, enda um tveggja tíma akstur frá Mývatni til Egilsstaða. Íslendingurinn hélt því akandi á eftir túristanum og náði honum fljótlega og var hann þá allur útataður í mýi og bar sig illa. Þeim samdist þannig um að útlendingurinn myndi splæsa hamborgara á Íslendinginn þegar til Egilsstaða kæmi. Á Egilsstöðum fengu vinirnir sér síðan að borða. Þá segir túristinn; ef þú keyrir mér til Reykjavíkur þá skal ég borga bensínið alla leið. Ungi íslendingurinn hugsaði sér smá stund um, kærastan hans var í Reykjavík og því ekki að skella sér til hennar og hafa það gott? Þeir héldu því af stað. Einhversstaða rétt hjá Djúpavogi, keyrðu þeir á kind og beygluðu bílinn, en það sást ekkert á kindinni, sagði vinurinn, hún haltraði bara smá! Þegar til Hafnar í Hornfirði kom var komið miðnætti og einhver útiskemmtun í gangi. Þeir skelltu sér í fjörið og skemmtu sér þar um stund. Síðan var haldið áfram, tekið smávegis bensín, en tankurinn ekki fyllur. Verið að spara! Íslendingurinn hringdi þarna í í kærustuna í Reykjavík. Eitthvað varð þeim sundurorða í símtalinu, skötuhjúunum og lauk samtali þeirra í miðju rifrildi þar sem rafhlaðan í gemsanum var orðin tóm. Svo kom þar að sögu að útlendingurinn rak upp stór augu þegar við blasti risastórt hvítt fjall. Hvað er þetta? hrópaði hann. Þetta er Vatnajökull sagði sjá íslenski stoltur, "biggest glacier in Europe." Túristinn vildi komast út af þjóðveginum og skoða þennan risa jökul nánar. Þeir fundu einhvern ”off road” eins og sjá ungi íslenski kallaði svoleiðis vegi, og keyrðu nær jöklinum. Þeir þurftu að fara yfir á og festu bílinn í ánni, en tókst að mjaka honum upp á bakkann aftur. Túristinn myndaði í gríð og erg hugfanginn af jöklinum. Þegar þeir héldu svo af stað frá þessum stað, þurftu þeir að bakka smávegis og þá heyrðist, krass... myndavélin! Hún hafði verið skilin eftir uppi á bílnum og datt og varð undir bílhjólunum . En hún virkaði áfram, var bara pínu skökk! Einhversstaðar stuttu síðar þegar þeir voru komnir upp á þjóðveginn, þá voru þeir stöðvaðir af löggunni. Íslenski vinur okkar sagði löggunni alla söguna, en löggan trúið honum ekki, lét hann blása í blöðru og tók blóðsýni. Ungi vinur okkar var náttúrulega alveg hreinn og lögreglan gaf þeim fararleyfi. Bensínljósið var búið að loga lengi áður en þeir komu að Vík, en náðu þó að bensínstöð þar. Íslendingurinn var stöðugt að hugsa um kærustuna sína og var miður sín að hafa verið að rífast við hana. Hann vildi því bæta úr því og færa henni eitthvað. Um áttaleitið á sunnudagsmorguninn komu þeir í Hveragerði og ætlaði vinurinn að fara í Eden og kaup blóm handa sinni ástkæru. Eden var ekki opið klukkan átta á sunnudagsmorguninn. Vinurinn dó þó ekki ráðalaus, heldur stoppaði af og til á leiðinni og tíndi blóm út í náttúrunni handa kærustunni (er þetta ekki mest hraun og mosi á leiðinni hmm?). Síðan leggur hann bílnum á bílastæðinu við Smáratorg og labbar til kærustunnar sem býr þar stutt frá. Útlendinginn skildi hann eftir sofandi í bílnum. Vinurinn ungi læddist svo inn og upp í rúm til kærustunnar með blómvönd í hendi og steinsofnaði strax. Kærastan vakti hann tveim tímum síðar, þar sem hann lá við hliðina á henni í vinnugallanum og hélt ennþá á blómvendinum. Ekki fer frekari sögum um samskipti þeirra skötuhjúa á þessum morgni. Nema að stuttu síðar fer íslendingurinn út á bílaplanið þar sem hann hafði skilið bílinn og útlendinginn eftir. Þar var túristinn, kominn út úr bílnum og var mjög ringlaður. Vissi ekkert hvar í heiminum hann var. Útlendingurinn segir þá; heyrðu ég er búinn að spara mér svo mikinn tíma, af því ég var svo fljótur að fara hringinn með þér að ég er að hugsa mér að skella mér aftur til Akureyrar með þér! Jú, það var í lagi, sá íslenski, var hvort sem er á leiðinni heim til sín norður til Akureyrar. Á leiðinni spurði sá útlenski hvort þeir ættu ekki að skella sér smá túr um vestfirði! En, nei nú var nóg komið. Um áttaleitið á sunnudagskvöldið komu þeir síðan til Akureyrar, einum og hálfum sólarhring eftir að vinur okkar ætlaði í smá skottúr frá Akureyri til Lauga. Segið svo að ævintýrin gerist ekki enn á Íslandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

  Jahérna..... skemmtileg saga. Alveg er ég viss um að þessi strákur er alinn upp í sveit, svona greiðvikinn.  Ha ?

Anna Einarsdóttir, 1.8.2007 kl. 23:03

2 Smámynd: Brattur

... hann var sem barn í Vestmannaeyjum og flutti svo norður til Akureyrar... mjög heilsteypur, einbeittur ungur maður... og góð sál eins og fram kemur í sögunni...

Brattur, 1.8.2007 kl. 23:11

3 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

 yndisleg saga.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 2.8.2007 kl. 21:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband