Gulli og ég
24.6.2007 | 11:31
Ég datt í lukkupottinn um daginn, mér bauðst hálfur dagur í veiði upp á urriðasvæðinu í Laxárdal. Þurfti að sjálfssögðu að borga, en í þessa perlu komast færri en vilja. Þetta voru 2 stangir á einum af bestu svæðunum í ánni. Ég þurfti því veiðifélaga og var svo heppinn að einn sá alskemmtilegast sem ég gat hugsa mér að fara með, hann Gulli var á lausu og til í að koma með. Við karlarnir verðum alltaf eins og litlir strákar þegar veiði framundan, okkur hlakkar svo til, verðum spenntir og æstir. Það er góð tilfinning að hafa þegar maður er ekki beint strákur ennþá.
Við Gulli hittumst um tvöleitið. Gulli er hættur að reykja, nema þegar hann fer að veiða... og veiðitúrinn var náttúrulega byrjaður þegar hann kom heim til mín. Við settumst því augnablik út á verönd svo Gulli gæti kveikt í fyrsta vindlinum. Veðrið var orði hryssingslegt, kaldur vindur að norðan, en við kærðum okkur kollótta. Við brunuðum svo af stað... upp í veiðihúsi var allt mjög rólegt. Flestir veiðimenn höfðu gefist upp í kuldanum og hætt veiðum. Það fannst okkur Gulla heldur augmingjalegt. Þarna var þó mættur maður sem hafði komið þarna í 25 ár samfellt og oft mörgum sinnum á ári. Þegar svona maður er í færi, þá notar maður tækifærið, spyr og hlustar með athygli og virðingu. Þetta er næstum því eins og að fá einkaviðtal við Guð. Ef maður fengi 5 mínútur með Guði, hvers myndi maður spyrja?
Ég hef bara veit í Laxánni í 10 ár og er því bara byrjandi. Gulli hefur nokkur ár framyfir mig, svo ég notaði tækifærið og bað hann að kenna mér á Ferjuflóann. Ég hef aldrei skilið Ferjuflóann. Og nú kemur að því að ég uppljóstra hversu galinn ég er.
Veiðiaðferð mín felst í því að horfa á og hlusta á vatnið. Ég horfi á rennslið, hvar eru grynningar, hvar er dýpi, hvar myndi ég liggja ef ég væri urriði. Vatnið er alltaf að segja manni eitthvað. Á sumum stöðum í ánni hef ég bara allsekki getað skilið vatnið. Ég hef horft á rennslið, ég hef hlustað, ég hef dýft hendinni ofan í það, en ekki náð að heyra það sem það er að reyna að segja. Ég veit að það hefði kannski komið eftir örfá ár, en til að flýta fyrir þá fær maður hjálp frá þeim sem eru lengar komnir. Gulli kenndi mér því á Ferjuflóann. Ég er því aðeins farinn að skilja hvað hann er að meina. Flesta aðra staði í ánni er ég farinn að skilja og þar veiði ég oftast vel.
"Farðu þarna uppfyrir brotið og kastaðu beint upp fyrir þig" sagði Gulli. Við veiðum mikið upstream, eða andstreymist eins og það heitir á íslensku. Ég kastaði púpunni eins og Gulli hafði sagt mér að gera. Og eftir örfá köst, sprenging í vatnsfletinum og stór urriði stökk upp úr vatninu.
Gulli lenti í ævintýri á Pollnestánni, þar sem stór fiskur tók þurrflugu, en sleit... þá gafst færi á því að setjast á bakkann og fá sér vindil og segja mér alla söguna af viðureigninni. Ég tók síðan fiska við Jóelsbakka og Bárnavík. Fallega fiska.
Við veiddum til tíu um kvöldið, þá var komið logn en ennþá kalt, um 4 gráður. En náttúran engu að síður stórbrotin. Tveir fálkar flugu hjá og lítill svartur lambhrútur jarmaði á bakkanum, hafði týnt mömmu sinni. Stóð þarna á bakkanum, horfði sorglegum augum á mig og jarmaði. Ég jarmaði á móti, en þá tók hann til fótanna... verð líklega að æfa jarmið mitt betur.
Athugasemdir
Snilld að geta hlustað á vatnið, þetta er ég alveg viss um að þú getur en spurning hvort fiskarnir þurfa ekki að fara að ræða við vatnið að kjafta ekki svona frá. En þá veiðir þú væntanlega minna er það ekki?
Lára Stefánsdóttir, 24.6.2007 kl. 11:56
Sæll Gísli,
gaman að þú sért kominn í minn bloggvina hóp!
Hvar á landinu býrðu og hvað sýslarðu með þegar þú ert ekki að reka niður járnkarla eða veiða fisk?
Fyrirgefðu forvitnina - hef bara gaman af að vita aðeins meira um bloggvini?
Ásgeir Rúnar Helgason, 24.6.2007 kl. 17:29
Sæll Ásgeir og gaman að heyra frá þér... hvað ég geri... ég vinn í matvörugeiranum, grunnþörfunum! Ber titilinn svæðisstjóri og ferðast á milli matvöruverslana sem Samkaup á og rekur á norðurlandi, en þær munu vera 13 talsins. Það skýrir líklega þetta sem við hentum á milli okkar um Baug um daginn hehe.... er norðlendingur eins og þú, fæddur á Ólafsfirði, en bjó í 20 ár í Reykjavík áður en ég synti á móti straumnum og flutti til Akureyrar fyrir 11 árum... og hér er gott að vera!
Brattur, 24.6.2007 kl. 17:56
Móttekið!
Heyrumst/skrifumst - nú eða sjáumst!
Ég er mikið í Svarfaðardal, við fjölskyldan keyptum þar lítinn jarðarskika sem heitir Gröf. Pabbi er þaðan og vildi endilega eignast pleisið þegar ríkið gerði það falt.
Bless í bili: asgeir
Ásgeir Rúnar Helgason, 24.6.2007 kl. 18:14
Hvað sagðir þú eiginlega við lambið ?
Anna Einarsdóttir, 25.6.2007 kl. 16:40
Anna, ég sagði bara á kindamáli (jarmi) "koddu, koddu greyið, ég skal gefa þér heyið"...
Brattur, 25.6.2007 kl. 21:17
Og lambið heyrði þig jarma "þegiðu eða ég set þig á diskinn minn". Þú verður að vanda þig betur gæskurinn.
Anna Einarsdóttir, 25.6.2007 kl. 22:42
... en ég hélt að saklaust útlit mitt myndi duga, þó framburðurinn væri ekki góður...
Brattur, 25.6.2007 kl. 23:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.