Skessur og tröllkonur
31.5.2007 | 23:36
Ég er hér með mjög góða grein fyrir framan mig í Skírni, Tímarit hins íslenska bókmenntafélags, vor 2004.
Greinin heitir : í orðastað Alfífu og er eftir Jónu Guðbjörgu Torfadóttur.
Þarna er margt áhugavert og bitastætt.Hún fjallar m.a. um það að konur fyrr á öldum sem voru aðsópsmiklar og eitthvað kvað að, voru stimplaðar tröllkonur eða skessur.
Slíkt er enn í gangi í íslensku samfélagi; sbr. miklar árásir á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur o.fl. á síðustu misserum.
Ég gríp hér niður í grein Jónu Guðbjargar:
Konur máttu hafa sig hægar því annars gátu þær átt von á því að verða vændar um tröllskap og ónáttúrulega hegðun. Orðræðan hefur ávallt verið afar öflugt valdatæki sem oftast var stjórnað af karlmönnun og í höndum þeirra enn ein leið til þess að hemja konuna og hegna henni. Allt fram til þessa dags hefur sterka konan mátt þola harða útreið og niðurlægingu. Ágætt dæmi frá nútímanum er meðferðin á kvenréttindakonum 20.aldar.Skemmst er að minnast almenningsviðhorfa til Rauðsokkahreyfingarinnar. Ein af Rauðsokkunum, Helga Sigurjóndóttir, segir svo frá að þær hafi nánast orðið þjóðsaga í lifanda lífi þar er almannarómur var undrafljótur að gera sér mynd af þeim:
Rauðsokka var karlkona sem hataði karlmenn og vildi ekkert hafa með börn að gera. Hún sinnti ekki húsverkum og væri hún gift neyddi hún veslings eiginmanninn til að sjá um heimilið. Hún var ósmekkleg í klæðaburði, mussukona og lopadrusla, gekk á flatbotna skóm óburstuðum, snyrti sig ekki, lét hár sitt vaxa og greiddi það sjaldan. Til að kóróna allt saman var þetta óánægð kona og ófullnægð bæði sálarlega og kynferðislega. (Gestur Guðmundsson og Kristín Ólafsdóttir ´68 Hugarflug úr viðjum vanans).
Kona sem hefur sig í frammi hefur ætíð farið með hlutverk andstæðingsins, hún beygir sig ekki undir vald feðraveldisins og því stafar samfélaginu ógn af henni: í viðjum fjölskyldunnar er henni úthlutað hlutverki vondu stjúpunnar þar sem hún sinnir ekki skyldum sínum sem eiginkona og móðir og vill fyrirkoma fjölskyldu sinni; hún hlýtur þann dóm að verða að hrikalegri og holdmikilli tröllkonu sem berar sköp sín undan stuttum stakki í von um að linjulegur mannræfill verði á vegi hennar svo hún megi svala fýsnum sínum.
Athugasemdir
Athyglisverð grein. Ég las einmitt um daginn að menn löðuðust helst að konum sem væru sætar og þörfnuðust verndar. M.ö.o. ósjálfbjarga og "ekki sterkar". Kemur heim og saman við ofangreindan pistil.
Jafnframt líkleg skýring á því af hverju ég á ekki mann. Ég er samt ekki að leita mér að linjulegum mannræfli.
Anna Einarsdóttir, 1.6.2007 kl. 14:42
Konur sem eru sætar og ósjálfbjarga eru svo auðveldar í meðförum; þær reyna ekkert á mann hinar eru bara svo miklu skemmtilegri...... annars gott orð þetta "linjulegur"... held ég átti mig alveg á týpunni... í Guðanna bænum forðastu þá
Brattur, 1.6.2007 kl. 17:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.