Raggi ruslahaugur

Raggi ruslahaugur var hann kallaður.

Hann var eins og gangandi ruslahaugur. Hárið mikið og úfið, stóð beint út í loftið, skítugt.
Hann var með stórt bogið nef og blá augu sem voru full af visku. Hann var með stórt hökuskarð í útstæðri hökunni og spékopp sem var alltaf fullur af skít á vinstri kinn. Raggi lyktaði þó ekki eins og ruslahaugur, nei þvert á móti lyktaði hann eins og ilmvatnsbúð. Hann keypti rakspíra og konuilmvötn á tveggja vikna fresti og naut þess að úða þessum vötnum á sig í tíma og ótíma.

Raggi var langur. Var það sem kallað er sláni. Hann var alltaf í dökkbrúnum buxum með gati á rassinum svo sást í gular nærbuxurnar. Hann var oftast í grænni og svartri skyrtu, köflóttri.
Þegar hann fór út úr húsi sveipaði hann yfir sig pýramídagulum Mokkajakka sem Óli Greipur hafið gefið honum fyrir 28 árum.

Dag einn þegar Raggi var í fótabaði að horfa á matreiðsluþátt í sjónvarpinu, þá var bankað á útidyrnar.
Fótabað var eina baðið sem Raggi fór í, að öðru leyti var hann ekki mikið fyrir vatn. Hann átti ekki von á neinum, svo þetta hlaut að vera sölumaður. Hann teygði sig í óhreint viskustykki  og þurrkaði á sér tærnar.
.

 drawings-2

.

Fyrir utan stóð maður, feitur, skeggjaður, gráhærður. Hvað get ég gert fyrir þig ? spurði Raggi. Ég er kominn til að ná í Mokkajakkann minn svaraði sá feiti og hló.

Raggi horfði í grá augun feita mannsins og sagði; ert þetta þú Óli... ert þetta þú Óli Greipur ???

Já, Ragnar ruslahaugur, þetta er ég... og ekki reyna að segja við mig; Þú hefur ekkert breyst !

Komdu inn gamli, nú skulum við opna flösku ég hef hvorki heyrt þig né séð síðan þú gafst mér Mokkajakkann forðum... abababbb... sagði Óli, lánaði... ég gaf þér ekki jakkann, ég lánaði þér hann.

Um nóttina sátu þeir félagar í stofunni heima hjá Ragga ruslahaug, drukku rauðvín og sögðu hvor öðrum lífssögu sína. Þeir hlógu og þeir grétu og þeir sungu við kertaljós... fóru fram í eldhús, steiktu egg og beikon og nöguðu kjúklingaleggi sem orðið höfðu afgangs fyrr í vikunni.

Um það leyti þegar fólk fór til vinnu um morguninn sigraði svefninn Óla Greip þar sem hann lá í rauða sófanum í stofunni... Raggi náði í pýramídagula Mokkajakkann og breiddi yfir hann, renndi höndunum í gegnum skítugan stífan lubbann og hugsaði; best að fara að leggja sig líka.
.

 5240428607_9428dbe850

.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband