Frakkaskáldið
12.5.2010 | 20:45
Hann sat á kaffihúsinu og sötraði heitt súkkulaði. Það var rigning úti og regnvatnið rann niður gluggann. Á diski fyrir framan hann var kleina sem hann var hálfnaður með.
Hann var með blað og penna á borðinu. Blaðið var autt. Hingað hafði hann komið til að yrkja ljóð.
Honum fannst hann ekki vera raunverulegur. Það var enginn raunveruleiki sem hann lifði í. Hann var sögupersóna í skáldsögu og það var einhver að lesa um hann í sögunni. Þannig leið honum meðan hann starði á dropana renna stríðum straumi niður rúðuna.
.
.
Þegar komið var að lokun, hneppti hann að sér svörtum frakkanum sem var allt of stór og gekk eins og skuggamynd út í rigninguna.
Þegar þjónustustúlkan tók af borðinu sá hún blaðið sem frakkaskáldið hafði skilið eftir. Hún tók það upp og las í hálfum hljóðum.
Ég er farinn úr þessari bók.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.