Ronni

Við Ronni lentum í smá ævintýri í nótt. Ronni er gestur á heimilinu, grár feitlaginn köttur.

Þar sem nokkuð er um ketti í húsinu þarf hver og einn að finna sér pláss og helga sér land.

Ronni hefur valið baðherbergið. Þar hefur hann fundið sér fleti hjá ofninum þar sem hann lætur sig dreyma um sól og sumar og hagamýs.

Ronna þykir sopinn rosalega góður. Hann stekkur upp í baðkarið þegar hann verður þyrstur og sleikir dropana sem þar hafa orðið eftir þegar einhver hefur verið í sturtu.

Í nótt vaknaði ég og rölti fram á baðherbergi. Ronni var hálf sofandi, reyndi að mjálma en það kom bara svona hljóð út úr honum eins og úr falskri ryðgaðri munnhörpu, djúpu tónarnir.

En svo vaknaði hann og stökk upp í baðkarið og bað um vatn... mjáaááaááááa...

Ég, varla vakandi, teygði mig í kranann og skrúfaði frá... en sturtan fór þá í gang og bleytti okkur báða verulega mikið... ég varð alveg hundblautur... en ég get varla sagt það um Ronna þar sem hann er köttur... en hann varð semsagt alveg eins og ég hundblautur og stökk með látum upp úr baðkarinu og þaut fram.

Í morgun hefur Ronni alveg forðast mig og tekur alltaf smá sveig framhjá mér þegar við mætumst. En ég held að hann hafi nú samt haft lúmskt gaman af þessu þar sem ég blotnaði meira en hann... það er glott á kattarkvikindinu sem virðist bara ekki ætla að fara af í bili.
.

 

.Kitty


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband