Beikon
27.4.2010 | 00:22
Þegar við viljum gleðja aðra þá föllum við stundum í þá gryfju að gefa eitthvað sem OKKUR þykir gott, því við hugsum að það sem okkur þykir gott þykir öðrum gott líka, það hlýtur bara að vera þannig.
En eins og við vitum líka, þá höfum við ekki alltaf á réttu að standa, sem er bara hið besta mál.
Þessa sögu sagði maður mér í dag sem hefur verið kaupmaður í langa tíð, mjög góður kaupmaður og vandaður í alla staði. Gefum honum orðið;
Í nágrenni við búðina mína bjó gamall maður. Hann hringdi alltaf í mig og pantaði það sem hann þurfti í matinn. Ég tók matvælin til, setti í kassa og sendi heim til hans. Svona gekk þetta í langan tíma. Einn daginn rakst ég á gamla manninn þar sem hann sat á bekk í garðinum sínum. Ég stoppaði við grindverkið og spjallaði aðeins við hann um heilsuna og veðrið. Spurði svo að lokum hvort allt væri ekki í lagi varðandi heimsendingarnar á matnum. Jú, svaraði gamli maðurinn; það er allt í góðu en áttu aldrei til gott beikon ?
Beikon, sagði ég hissa; ég vel alltaf sjálfur besta beikonið fyrir þig það sem er með minnstu fitunni.
Já en, svaraði gamli maðurinn... mér finnst beikon sem er feitt miklu betra.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)