Tjaldur Hermannsson
23.10.2009 | 20:11
Einu sinni var maður sem aldrei gat sagt neitt fallegt.
Hann kunni engin orð nema ljót. Þessi maður hét Tjaldur. Pabbi hans var hermaður sem enginn vissi hver var eða hét. Strákhvuttinn var því aldrei kallaður annað en Tjaldur Hermannsson.
Tjaldur var illa innrættur og illa upp alinn. Hann nærðist á því að tala illa um annað fólk.
Hann kallaði menn nöfnum eins og "Heimska ketti" "Þroskahefta" "Kommúnista" "Veiðiþjófa" "Lýðskrumara" "Beinasna"... konur kallaði hann aldrei annað en "Kerlingaálftir".
Hann var svo orðljótur að amma hans var hætt að bjóða honum í pönnukökur og súkkulaði og kallaði sú góða kona ekki allt ömmu sína.
En svo kom að því að Tjaldur dó. Og eins og með alla sem deyja, þá reyndi hann að komast inn í himnaríki.
Tjaldur bankaði heldur ruddalega á dyr himnaríkis. Lykla Pétur var á vaktinni og opnaði rifu á hliðið.
.
.
Af hverju varstu svona lengi að opna kommatitturinn þinn, hreytti Tjaldur út úr sér.
Slappaðu nú aðeins af Tjaldur minn, svaraði Lykla Pétur og dæsti... slappa af, slappa af, hálf öskraði Tjaldur... ég er ekki kominn alla leið hingað til að slappa af heimski kötturinn þinn...
Þá byrsti Lykla Pétur sig og sagði; það voru 1 % líkur á því að þú ættir möguleika á því að komast inn í himnaríki þegar þú barðir að dyrum... nú hefur þú klúðrað því félagi Tjaldur... þú þarft því núna að ganga eftir stígnum þarna og beygja til hægri við Rökkurtréð... þá kemur þú á veg sem liggur beint til helvítis... og hypjaðu þig af stað...
Tjaldur gretti sig og hvæsti að Lykla Pétri... það er allt í lagi því í himnaríki eru eintómir helvítis vinstri menn... ég á þó von á að hitta félaga mína á hægri vængnum hjá kölska... segðu svo kerlingarálftinni honum Jesús að hann sé lýðskrumari og beinasni...
Með það var Tjaldur rokinn. Pétur hristi hausinn, lokaði dyrum himnaríkis á eftir sér og læsti.
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)