Fyrirhyggjumaðurinn

Ég hef alltaf öfundað fyrirhyggjufólk... fólk sem hugsar hvernig það ætlar að komast til baka úr þeirri ferð sem það leggur upp í... fólk sem er til fyrirmyndar og með allt sitt á hreinu...

... ég er ekki beint þessi manngerð... ég get verið óskipulagður og göslast stundum í gegnum hlutina... en ég er oft heppinn í því sem ég geri... hlutirnir ganga vel þrátt fyrir að ég hugsi ekki í upphafi fyrir öllu... og oft er ég líka hálfgerður klaufi... eins og t.d. í veiðinni, það eru ekki margir sem hafa verið með fisk á og staðið upp á bakkanum og stigið í holu og farið kollhnís afturábak út í á og landað svo fiskinum á eftir... (ég sem get varla farið venjulegan kollhnís)... eða verið á bakkanum og stigið út í vatn sem sýndist vera grunnt, en var svo hyldýpi þegar ég ég steig út í vatnið og gjörsamlega hvarf á bólakaf... en svo var fiskur á hjá mér þegar ég steig upp aftur...

... ég rakst á gamlan texta um þetta sem ég skrifaði fyrir mörgum árum um svona fyrirmyndarmann... en þegar ég fór að skoða hann betur, þá sá ég að ég stend líklega bara undir öllu því sem ég skrifaði um þennan mann, nema einu... og hvað skyldi það nú vera? (síðast erindið undanskilið)

Finnbogi fyrirmynd.

Þetta er maður
sem bakkar alltaf inní stæði
fyrirhyggjumaður

Þetta er maður
sem mætir alltaf á réttum tíma
stundvís maður

Þetta er maður
sem skuldar engum neitt
skilvís maður

Þetta er maður
sem er alltaf þveginn og strokinn
snyrtilegur maður

Þetta er maður
sem syndir á hverjum morgni
líkamsræktarmaður

Þetta er maður
sem nagar

samvisku mína


Bloggfærslur 26. ágúst 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband