Brattur og bróðir hans

... jæja, þá er ég kominn heim og verð í einn dag heima!... það er búið að vera mikið at á mér og ofboðslega gaman... er búinn að vera í veiði í tveim ám, fara í fjallgöngu með gömlum skólabróður og syni hans og yndislegri 16 ára frænku minni sem ég var nú bara að kynnast í fyrsta skiptið... Við gengum sem sagt upp á Múlakolluna í Ólafsfirði, sem er fjallið þar sem jarðgöngin milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur fara í gegnum... minn gamli skólabróðir og vinur sem var með mér er búinn að búa í Svíþjóð síðan árið 1981... sonur hans, tvítugur strákur, sem með okkur var heitir því skemmtilega nafni Magnús Múli,og þess vegna var þetta fjall fyrir valinu... við fórum þessa fjallgöngu á föstudeginum, en þá um kvöldið og síðan daginn eftir var síðan bekkjarmót á Ólafsfirði... við vorum líka að sýna okkar gömlu bekkjarfélögum að það er ýmislegt hægt að gera þó aldurinn færist yfir og vorum gríðarlega stoltir af okkur þegar til byggða var komið aftur... ég ætla nú ekki að fara út í nein smáatriði um það sem síðan gerðist um helgina, en mikið rosalega skemmti ég mér vel...

... annað sem ég gerði í vikunni var að taka upp á disk veiðilagið "Fílhraustir drengir" með honum bróður mínum... við sömdum lag og texta saman bræðurnir og er það í fyrsta skipti sem við höfum lagt saman í púkk hvað þetta varðar og vonandi gerum við meira af því í framtíðinni... við erum með þessum boðskap að reyna að leiðrétta þann misskilning að það að vera í veiði sé bara glens og grín og fyrir hvern sem er... formlegur útgáfudagur lagsins verður á morgun og athöfnin fer fram á bökkum Laxár í Laxárdal þar sem diskurinn verður áritaður meðan birgðir endast, en við erum einmitt að fara á morgun að veiða í þessari perlu og verðum fram á fimmtudag...

... lagið er vals svo hægt sé að dansa við ráðskonurnar í veiðihúsunum og veiðifélagarnir geta tekið undir í viðlaginu... við bræður syngjum fyrstu tvö erindin til skiptis og blöndum svo því síðasta saman... sumir segja að raddir okkar séu líkar...

... en sem sagt, smá forskot á sæluna, hér er textinn og lagið er komið á spilarann hér fyrir neðan...

Fílhraustir drengir


Fólk heldur að það sé frí
Að fara í veiði
Lúxus leti líf
Upp á heiði
En ekki er þar allt sem sýnist vera
Og alla daga meira en nóg að gera

Það er hörkupuð
Að vaða stríða strengi
Við flugnasuð
í kaldri ánni lengi
það bara fyrir hrausta drengi

Á morgnanna við vöknum
Stundum snemma
Klukkan átta og jafnvel fyrr
Þeir sem nenna
Í nesti tökum orkuríkan lager
Kassa af góðum bjór og flösku af Jager

Því það er hörkupuð
Að vaða stríða strengi
Við flugnasuð
í kaldri ánni lengi
það bara fyrir hrausta drengi

Trítlum eins og dvergar sjö
Að ánni
Með stöng og flugubox
Og með í tánni
Köstum flugum fimlega í strauminn
Í dag við látum rætast drauminn

Það er hörkupuð
Að vaða stríða strengi
Við flugnasuð
í kaldri ánni lengi
það bara fyrir hrausta drengi

Já, það er streð og puð
Að stríða vaða strengi
Og aðeins fyrir hrausta drengi
Já, fílhrausta drengi


Bloggfærslur 20. ágúst 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband