Hugsað til baka
27.11.2007 | 22:41
... ég var alinn upp í litlu sjávarþorpi... mikil einangrun og varla bílvegur fær úr þorpinu, nema yfir blásumarið... flóabáturinn Drangur kom tvisvar í viku, ef ég man rétt... þá stóðum við krakkarnir í fjörunni og góluðum "hey babiríbba, Drangur er að píbba"... dagblöðin kom oft í vikuskömmtum og ekkert sjónvarp... hlustað á ríkisútvarpið og bátabylgjuna...
... flestir karlarnir sjómenn og pabbi var sjómaður... maður sá hann ekki nema af og til, var á vertíð einhversstaðar annarsstaðar á landinu... þannig kom það til að flestir voru kenndir við mömmur sínar.... Böddi Hófu, Gilli Sigurveigar, Ægir Fjólu...
... ekki ætla ég að segja að hlutirnir hafi verið betri þá, síður en svo... en hef ekkert annað en skemmtilegar minningar og frekar áhyggjulaust líf...
... ég er með í smíðum ljóðakafla frá þessum árum sem ég skipti um í þrjá kafla... tvo um vini mína Bödda Hófu og Ægir Fjólu... sá þriðji verður svo um mig og mínar minningar frá þessum árum...
... allir sjómenn voru í svörtum duggarapeysum, eins og Kolbeinn kafteinn sjálfur... hann hefði fallið vel í þann hóp...
.
.
Karlarnir.
Að verða stór
gerðist ekki bara si svona
Það báru karlarnir með sér
sjóbrúnir í andliti
með skeggbrodda
og reynslumikil dimm augu
svo klárir
og vitrir
og sterkir
og duglegir til vinnu
vissu alltaf
hvað þeir áttu að gera
ekkert hik
á mínum mönnum
herðabreiðir
í svörtum
duggarapeysum
Ljóð | Breytt s.d. kl. 23:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)