Iðar

Einu sinni var maður sem hét Iðar.

Hann var afdalabóndi og bjó í Skinni í Litlahreppi.

Þegar hann kom í bæinn í verslunartúr tóku allir eftir honum. Hann var mjög hávaxinn og einnig mjög hárvaxinn. Rautt sítt hár og skeggið svo mikið að ekkert sást í andlitið nema dökkblá augun.

Þegar hann talaði þá opnaðist rifa í miðju skegginu og munnurinn kom í ljós. Röddin var djúp og mikil, rám og minnti helst á hrút með hálsbólgu.

Fólkið hvíslaði sín á milli; hver er þetta eiginlega ?

Jú, þetta er hann Iðar í Skinninu var svarið. 
.

 oldbarn

.

Iðar tók einu sinni upp á því að fara að stunda messur í bænum. Hann hafði unun af því að hlust á sálmana sem kirkjukórinn söng. Iðar lærði smám saman textana og söng með í huganum. En svo þegar tíminn leið þá fór hann að syngja upphátt. Fyrst var þetta bara svona raul en fljótlega var hann farinn að syngja af fullum krafti.

Iðar söng hátt og snjallt. Það var eins og hundrað hrútar væru saman komnir. Og þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig "Bjargið aldan borgin mín" hljómar úr munni hundrað hrúta.
Þessi söngáhugi Iðars varð brátt vandamál. Kirkjugestir voru hættir að heyra í kirkjukórnum og kvörtuðu við prest og kórstjóra undan honum.

Iðar var kallaður á fund. Iðar minn, sagði séra Gaukur varfærnislega. Er nokkur möguleiki á því að þú gætir aðeins lækkað róminn þegar þú syngur ? Kirkjukórinn á í mestu erfiðleikum með að yfirgnæfa þig. Já, já svaraði Iðar, ef ég má vera meðhjálpari þá skal ég alveg hætta að syngja.

Eftir töluvert japl, jamm, fuður og baktjaldamakk var Iðar boðið að vera meðhjálpari einu sinni í viku en þó með einu skilyrði. Hann yrði að raka af sér skeggið og snyrta hár sitt.

Það var fjallmyndarlegur maður sem kom í ljós þegar allt hárið hafði verið fjarlægt af Iðar. Það leið ekki á löngu þar til hann giftist henni Valdínu í kirkjukórnum.
Eignuðust þau dreng sem skírður var Yðar.

Líkur nú sögunni af Iðar í Skinninu.
 .

john-millington-synge-1

.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eygló

Náðirðu í lyfjaboxið mitt?

Eygló, 12.12.2009 kl. 17:26

2 Smámynd: Rannveig Guðmundsdóttir

Hahaha stórskemmtileg lesning! Takk fyrir mig.

Rannveig Guðmundsdóttir, 13.12.2009 kl. 14:14

3 Smámynd: Steingrímur Helgason

Flottur núna, enda ekkert að mala um fódbolta....

Steingrímur Helgason, 13.12.2009 kl. 23:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband