Kavíar

Ég opnaði ísskápinn í morgun til að sjá hvað ég gæti fengið mér í gogginn í morgunsárið.

Ég var afslappaður og átti engan veginn von á því sem gerðist.

Og hvað getur svo sem gerst þegar maður opnar ísskáp ?

Algjörlega grandalaus, vel hvíldur á sál og líkama horfði ég á kavíar túpu, nokkuð stóra, renna af stað eftir salatpokanum.  Ég varð strax ekkert hræddur en ég hefði átt að vera það.

Túpan sveif út úr ísskápnum eins og finnskur skíðastökkvari og grjótharður, mjór afturendi hennar lenti ofan á uppáhalds stóru tánni minni. Og þvílíkur sársauki. Það var eins og meitill hefði lent á henni. Og ég er enn að drepast í tánni nærri því klukkutíma síðar.

Ég sagði betri helmingnum frá þessu og bætti við að ég væri örugglega fyrsta manneskjan í heiminum sem hefði meitt mig á kavíar. Það væri nú ekki hægt að toppa það.

Þú manst þegar ég meiddi mig á sjúkrakassanum, svaraði þá betri helmingurinn !
.

kaviar2ddddd

.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eygló

Nei, NÚ er herra Mill´s réttdræpur!

Gaman væri að safna saman ótrúlegustu og hallærislegustu (nefni ekki nafn) óhöppunum. 
Persónulegt met mitt er að meiða mig á augabrún, hendi og sköflungi í einu vetfangi... á hurð sem ég skellti sjálf. Aðdragandinn átti ekkert sameiginlegt með hátignarlegum Holmenkollen-tilburðum túpunnar þinnar.

Eygló, 28.11.2009 kl. 15:06

2 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Toppa það!? Ekki mikið mál. Ég fór úr axlarlið við það eitt að mæta OSTI. Ostur er mjúkur, eins og allir vita, en olli engu að síður viðbeinsbroti, úr axlarlið, og glóðarauga hjá Tuðaranum. Hef ákveðið að senda atburðarrásina í díteil á þig Brattur, en af þessu er ljóst að Mills kavíar er langt frá því að vera hættulegasta vara í heimi.  Skiptir engu þ´tupan sé keypt í Borgarmesi.

Halldór Egill Guðnason, 29.11.2009 kl. 03:37

3 Smámynd: Eygló

HEG
Leyfðu mér / okkur hinum líka að njóta...

Af því að ég veit ekki alla söguna, hljómar frásögn þín svolítið í áttina við manninn sem dó af því að keyrt var yfir vísifingurinn á honum!!!  - Hann var að bora í nefið

Eygló, 29.11.2009 kl. 04:03

4 Smámynd: Brattur

Já, Halldór... út með sprokið...

Brattur, 29.11.2009 kl. 10:39

5 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Þar sem sérstök blogg færsla um axlarliðsúrkipp, glóðarauga og viðbeinsbrot liti illa út fyrir mig sem "færsla" á blogginu mínu, skal ég bara skella atburðarrásinni hér inn.: Alveg eins og með Bratt og Mills túpuna, var mér af einhverjum orsökum "stýrt" í ísskápinn. Svangur og langaði í...bara eitthvað. Ísskápurinn óvenju þéttskipaður þennan morgun og kvikyndið kom fljótlega auga á ost, sem framleiddur er á Húsavík og inniheldur paprikku og aðrar góðar kryddjurtir. Algert lostæti. Að sjálfsögðu var oststykkið innst í ísskápnum, óþægilega ofarlega til hægri þrátt fyrir að Tuðarinn sé meðalmaður að hæð. Í því er ég lyfti mér upp á báðar stóru tær, til að teygja mig í stykkið, kemur Jötunn, Sjéfferinn minn, askvaðandi og flaðrar upp um mig í leit að umhyggju, félagsskap og leik eins og honum er einum lagið. Nema hvað, staddur á tveimur tám, hægri hönd á osti frá Húsavík, fór jafnvægið eitthvað að riðlast. Vinstri höndin laus og greip í það næsta er laus hönd á leisti. Það reyndist hins vegar ekki mikið hald í því. Hálftóm kókflaska sem stóð á borðinu við hliðina á ísskápnum. Henni var að sjálfsögðu sveiflað eins og fiðri út í loftið og akkúrat ekkert sem gat komið í veg fyrir að fallið sem við blasti, yrði bæði asnalegt og gæti ekki endað öðruvísi en illa. Datt með vinstri sveig, með allan þunga á fætinum þeim megin, sem alls ekki undirbúinn fyrir fallið. Dró vinstri hönd ósjálfrátt eldsnöggt að mér og sló mig eiturhart beint í augað með hálftómri kókflösku. Fann eins og skot, þar sem ég féll, að þetta gæti ekki endað öðru vísi en svart. Dró hálftómu flöskuna að mér, svona upp undir bringuspalir, en dugði engan veginn til. Lenti á flöskunni, hún af einhverjum óskírðum ástæðum braut í mér rifbein, en höndin sem hélt henni datt úr lið, við öxl. Samanlagt tók þetta ferli ekki nema rétt um eitt andartak. Síðan þetta gerðist, hef ég aðeins keypt ost í sneiðum, sett hann fremst í kælinn og það sem sennilega reyndist mér besta lexían, hætt að kaupa kók.

Ekki orð um þetta meir.  

Halldór Egill Guðnason, 30.11.2009 kl. 02:18

6 Smámynd: Eygló

Ágæti Halldór

Þetta er nú ekki atvik sem maður hlær að, undir öðrum kringumstæðum.... en þvílík tilþrif; hefðir sigrað í e-s konar "free-style", en..... 

Annars finnst mér synd fyrir þá sem ekki sjá þetta, að þú skulir ekki setja þetta fyrir augu fleirri.  Þú hefur sannarlega frásagnargáfu þótt verksvitið sé e.t.v. ekki á sama stigi, miðað við ofanskráð

Eygló, 30.11.2009 kl. 04:01

7 Smámynd: Brattur

Dásamleg saga Halldór  ... er þetta ekki kallað gamanleikrit með sorglegu ívafi ?

Brattur, 30.11.2009 kl. 07:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband