Skarphéðinn Skata - seinni hluti

Mannkertið fór heim til sín og sagði fólki söguna af buxunum sem lifnuðu við og syntu á haf út. Fólk hló að þessari lygasögu Skarphéðins og taldi að nú væri hann endanlega orðinn ga ga.

 

Nokkru fyrir jól voru menn svo að veiðum. Drógu þeir þá mjög sérkennilegan fisk úr sjó.

Þeir sáu fljótt að augun í skepnunni voru alveg eins og tölurnar sem höfðu verið í buxunum hans Skarphéðins og spíssinn, eða sporðurinn á skepnunni, sem hann hafði talað um að hefði runnið út úr höndunum á sér, var alveg eins og hann hafði lýst.

 

Sjómennirnir fóru beint heim til Skarphéðins Skötu um leið og þeir komu að landi og sýndu honum fiskinn. Og það fór ekki milli mála,þarna voru buxurnar hans lifandi, en dauðar, komnar aftur.

 

Eigum við ekki að éta fiskinn sögðu menn. Nei, sagði Skarphéðinn, við étum ekki buxurnar mínar. Kemur ekki til mála. Ég vil grafa þær. Og það var engu tauti við hann komið. Skarphéðinn hélt sína jarðarför og gróf buxurnar í fjörukambinn.

 

Þegar komið var að jólum, hafði geisað óveður í marga daga og ekki gefið á sjó. Var orðið matarlítið þegar dagurinn áður en jólin byrjuðu rann upp. Ekki vildu menn borða jólamatinn of snemma.

Datt þá einhverjum í hug að grafa upp fiskinn eða buxurnar hans Skarphéðins Skötu og sjá hvort ekki mætti seðja hungur sitt á þeim.

 

Var þetta grafið upp og farið með inn í eldhús og fleygt í pott. Gaus þá upp þessi svakalega fýla svo fólk þurfti að flýja hús. En hungrið var svo mikið að fólk lét sig hafa það að fara aftur inn að hlóðunum og veiða upp buxnafiskinn og smakka á.

Og viti menn, þetta var ekki vont, alls ekki eins vont og lyktin. Færum Skarpa einn bita sagði einhver. Og honum var færður bitinn. Hann var glaður að fá matarbita og þakkaði fyrir sig og spurði hvað þetta væri. Þá var honum sögð öll sagan og allur sannleikurinn. Skarphéðinn reiddist í fyrstu en svo, þrátt fyrir heimsku sína og einfeldni, sá hann að kannski væri þarna kominn hlutur, matur, sem gæti gert hann frægan. Hann sagði: Ég fyrirgef ykkur ef ég má nefna fiskinn í höfuðið á mér, hann varð þó til úr buxunum mínum, ekki satt? Þetta samþykktu allir með glöðu gleði. En, sagði þó einhver, það er ekki hægt að kalla fisk Skarphéðinn, nei greip Skarphéðinn frammí. En finnst ykkur ekki kúl að nota millinafnið mitt, Skata?

.

 rokke2

. 

 Jú, þetta fannst öllum kúl svo það var samþykkt og meira að segja Laufa systir smellti kossi á kinn bróður síns. Hún var stolt og ánægð með afrek hans. Eftir þetta veiddust margar skötur og voru grafnar í fjörukambinn heima hjá Laufu sem fann upp Laufabrauðið og Skarphéðni Skötu sem fann upp Skötuna. Daginn fyrir Aðfangadag hvert ár eftir þetta hittust allir í þorpinu í félagsheimilinu Stybbunni og borðuðu Skötuna sína við langborð. Og þá var nú Skarphéðinn Skata heldur betur í essinu sínu.

  .ke_hjon.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Takk fyrir þessa söguskýringu Brattur minn og eins um hana Laufu. Nú sest maður niður með barnabörnunum um jólin og útskýrir þetta allt fyrir þeim. Maður á jú alltaf að segja satt og rétt frá, er það ekki annars? Eigðu gleðileg jól og og allt þitt fólk

Halldór Egill Guðnason, 21.12.2007 kl. 14:02

2 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Ég mun bíða eftir því að þú gefir út sögurnar um þau Laufu og Skarphéðinn.

Annars gleðilega hátíð til þín og þinna 

Ingibjörg Friðriksdóttir, 21.12.2007 kl. 19:54

3 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Flottar sögur af þeim systkinum,þakka fyrir,megirðu eiga gleðilega jólahátíð ásamt þínu fólki.Kveðja

Ari Guðmar Hallgrímsson, 21.12.2007 kl. 22:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband