Peppe

Einu sinni var maður sem hét Peppe.

Þið mynduð kannski halda að hann hefði verið Spánverji eða Ítali og hefði heitið fullu nafni Giuseppe og bara verið kallaður Peppe? En svo var ekki.

Peppe var Íslendingur og hann var róni enda uppnefndur af mönnum og málleysingum og aldrei kallaður annað en Pepperóni.

Það er þannig að þegar að maður hættir að vera venjulegur og verður róni þá breytist margt, sagði Peppe einu sinni við mig þar sem við sátum á bekk rétt hjá andapollinum. Hvað meinar þú Peppe sagði ég með minni mjúkustu röddu.

Jú, maður hættir að þurfa að þrífa sig og getur gengið um í grútskítugum fötum og verðið með skítugan hárlubba og skegg niður á bringu. Síðan þarf maður ekki á virðingu annarra að halda, hún bara hverfur, vinirnir hverfa. Svo er það einn og einn sem er aumingjagóður eins og þú sem nennir að tala við mig... það dugar mér alveg og svo sambúðin með Trölla.

Trölli var hundur, svona meðalhundur að stærð með rosalega stórt höfuð og kjaft eins og flóðhestur.
Hann var loðinn,  dökkbrúnn og hvítur að lit og vék aldrei frá húsbónda sínum. Þeir voru drykkjufélagar. Fullir saman, þunnir saman, skítugir saman.

En Peppe, sagði ég. Hvernig stendur á þessu nafni þínu Peppe ? Þetta er ekki íslenskt nafn. Nei, rétt er það ég átti að heita Pétur eins og hann afi en þegar ég var skírður þá stamaði afi, sem hélt á mér undir skírn, svo mikið að hann gat aldrei sagt annað en Pep Pe, Pep Pe. Prestinum fannst það svo flott nafn að hann tók það gott og gilt og svo hló Peppe ógurlega svo sást í svartar tennurnar í gegnum kafþykkt skeggið.

Annars er það mitt mottó í lífinu að maður eigi aldrei að gera flugu mein því að þá fá fuglarnir og fiskarnir minna að borða sagði Peppe um leið og hann stóð upp af bekknum og danglaði fæti í Trölla sem sofið hafði við fætur hans á meðan.

Hann gekk í burtu án þess að kveðja. Endurnar á pollinum gáfu frá sér aðvörunarkvak þegar þær sáu Trölla skakklappast meðfram bakkanum.
Eftir sat ég og vissi ekki hvort mér fannst lífið flóknara eða einfaldara en áður.
.

Duck_007_019

.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband